Sunday, April 10, 2011

Golf og hreyfigreining á Hótel Hamri

Dagana 6. og 7. maí verður haldið námskeið fyrir golfiðkendur að Hótel Hamri í Borgarnesi.

Námskeiðið er hið fyrsta í röð námskeiða, af þessu tagi, á Íslandi. Námskeiðið er skemmtileg blanda af hreyfigreiningu og afþreyingu. Hver og einn einstaklingur fær sérsniðna lausn á bakvandamáli sínu hjá sjúkraþjálfurum, starfsmenn Mountaineers ehf. fara með hópinn í ógleymanlega ævintýraferð á jökul, kvöldinu lýkur með frábærum mat og gestrisni á Hótel Hamri í fallegu umhverfi. Síðast en ekki síst er ekkert mál að taka nokkrar holur á golfvellinum, sem er í göngufæri frá hótelinu. 

Talið er að 80% af öllu fólki í vestrænum þjóðfélögum stríði við mjóbaksvandamál einhvern tíma á lífsleiðinni og stór hluti þeirra situr uppi með síendurtekin vandamál. Með nákvæmu hreyfigreiningartæki, sem íslenskir vísindamenn hafa þróað, er hægt að finna veikleika hvers og eins og setja saman einstaklingsmiðaða þjálfunar- og æfingaáætlun í framhaldinu. Að baki hreyfigreiningunni er hugmyndafræði sem hægt er að beita á margvísleg stoðkerfisvandamál en greiningar- og þjálfunaraðferðir sem eru notaðar á þessu námskeiði eru ekki í boði annars staðar í heiminum.

Vélsleðaferð á jökul er ævintýri sem líður seint úr minni. Ekið verður sem leið liggur upp á Langjökul, næst stærsta jökul landsins. Á leiðinni verður áð við Hraunfossa, Barnafossa og Deildartunguhver en ekið í gegnum Húsafellsskóg. Þegar upp á jökulinn er komið fá þátttakendur allan frekari útbúnað, hjálm og hlífðarföt fyrir vélsleðaferð sem stendur í alltof stutta klukkustund. Með í för eru starfsmenn Mountaineers ehf., þrautreyndur fararstjóri og bílstjóri .

Þátttakendur mæta að Hótel Hamri í Borgarnesi um kl. 13:00 á föstudeginum 6. maí. Dagskrá helgarinnar er hér í meðfylgjandi skjali. Námskeiðsgjald er 44.500 kr. Innifalið er hreyfigreining, þjálfunaráætlun, ævintýraferð á jökul, kvöldverður, morgunmatur, hádegisverður og gisting. Hægt er fá aukanótt á Hótel Hamri ef þess er óskað.

Skráning á námskeiðið fer fram á hamar@icehotels.is eða í s. 433 6600. Fjöldi þátttakenda á námskeiðið er takmarkaður við 10 manns. Skráningu lýkur 30. apríl.

Að námskeiðinu standa Einar Einarsson sjúkraþjálfari MSc., MTC, Gauti Grétarsson MTC., Harpa Helgadóttir sjúkraþjálfari  Ph.D., MTC, afþreyingarfyrirtækið Fjallamenn ehf. og Hótel Hamar. Allt sérfræðingar hver á sínu sviði, þ.e. í hreyfigreiningu og þjálfun á stoðkerfisvandamálum og sérfræðingar í ferðaþjónustu.